BE-SMART markmiðasetning virkar best!
- Ingvar Jónsson
- May 6, 2024
- 3 min read

Til að auka möguleika þess að ná þeim markmiðum sem maður setur sér getur verið gott að fylgja uppskrift sem virkar. Ef maður fylgir nákvæmlega uppskrift af góðri köku, þá verður kakan góð – ekki satt?
BE stendur fyrir þá þætti sem snúa að hversu mikið manni langar að láta markmiðið rætast. Það er AF HVERJU ættir þú að gefa allt sem þú átt til að ná markmiðinu. BE er það sem þú færð út úr því persónulega. Hvað gerir það fyrir þig? Hvernig líður þér þegar þú ert búinn að ná markmiðinu? Ef þú getur náð í þá tilfinningu, og ef hún er góð og vekur hjá þér spenning og tilhlökkun þá eru meiri líkur á því að þú sért tilbúinn að leggja á þig það sem þarf, þó að það sé erfitt.
Gott dæmi um þetta er handboltamaður sem vildi bæta stökkkraftinn og úthaldið. Hann skrifaði hjá sér að það sem verður betra hjá honum þegar hann væri búinn að bæta þetta tvennt yrði:
· Ég á auðveldara með að skora yfir hávörnina
· Ég ger stokkið lengra inn úr horninu, markið er opnara
· Það verður erfiðara að verja skot frá mér þegar ég get hangið lengur í loftinu
· Ég hef meiri tíma til að ákveða hvert ég á að skjóta
· Ég verð eins góður í seinni hálfleik eins og ég er í fyrri hálfleik
· Ég verð betri í bæði vörn og sókn þegar ég hef flott úthald í heilan leik
Þegar maður gerir sér grein fyrir því hvað verður betra þegar maður er búinn að ná markmiðinu, þá er maður tilbúinn að leggja meira á sig á æfingum til að ná þeim – það er ekki flóknara en það!
SMART snýst um HVAÐ þú ætlar að gera, HVERNIG þú ætlar að gera það og HVENÆR þú ætlar að gera það, hversu oft, lengi og svo framvegis.
S – stendur fyrir Skýrt, Skriflegt og Skipulagt (og skemmtilegt ef það er hægt)Hvað er það sem þú ætlar að gera öðruvísi en þú hefur gert hingað til? Ætlar þú að gera meira af einhverju sem þú veist að færir þig nær markmiðinu, minna af öðru sem þú veist að færir þig fjær markmiðinu? Ætlar þú að forgangsraða öðruvísi? Ætlar þú að leita aðstoðar hjá einhverjum sem getur aðstoðað þig með einhverjum hætti.
Hvort er líklegra til árangurs, að gera eitthvað sem þér þykir skemmtilegt eða að þurfa að gera eitthvað sem þér finnst leiðinlegt. „Hvað þarf ég að gera til að ná markmiðinu?“ er ágæt spurning en samt máttlítil og frekar ómarkviss. „Hvað gæti ég gert daglega sem færir mig örlítið nær markmiðinu og haft gaman af því í leiðinni?“ er spurning sem fær þig til að leita svara á allt öðrum stöðum heldur en þú hefur gert hingað til.
M – stendur fyrir mælanlegtEf þú hefur engan mælikvarða á hvar þú ert, hvernig veistu þá hvenær þú ert búinn að ná markmiðinu. Þú þarft að finna einhverja mælieiningu sem á við það markmið sem þú ert að vinna í. Sá sem ætlar að ná af sér spiki hefur nokkrar leiðir. Hann getur viktað sig og notað kíló sem mælikvarða. Hann getur farið í fitumælingu og notað prósentu sem mælikvarða, hann getur mælt ummál og haft sentimetra sem mælikvarða eða hreinlega hætt að velta sér upp úr þeim mælingum og einsett sér að komast 10 km í næsta Reykjavíkurmaraþoni, vitandi það að kílóin munu renna af honum á leiðinni.
Hér erum við eingöngu að skoða aðferðafræðina þannig að þú hámarkir möguleikana á því að ná þeim markmiðum sem þú setur þér.
A – stendur fyrir aðgerðabundiðHvað ætlar þú að gera? Aðalatriðið hér er að tryggja það að þú skrifir niður nákvæmlega hvað þú ætlir að gera, hvenær þú ætlir að gera það, hversu oft og hversu lengi.
R – stendur fyrir raunhæft (en samt sem áður krefjandi)Þegar þú setur þér markmið er það í þínum höndum að setja leikreglurnar þannig að þú getir unnið leikinn. Það eru algeng mistök hjá þeim sem eru í markmiðavinnu að ætla sér um of. Ætla að sigra heiminn á viku er ekki raunhæft! Að bæta stökkraftinn um 20% á 2 vikum er óraunhæft. Að bæta hann um 10% á tveim mánuðum er raunhæft. 1% framfarir á dag skilar 100% framförum á 3 mánuðum. 0,1% framfarir á dag skila sér í 43% árangri á einu ári.
T - stendur fyrir tímasett.Hvenær ætlar þú að fara af stað? Hvenær ætlar þú að vera búinn að ná markmiðinu. Með því að tímasetja markmiðið ert þú að setja þér aðhald og tímaramma utan um markmiðið. Ef markmiðið er stórt þá borgar sig að skipta því upp í minni og viðráðanlegri markmið. Það geta allir borðið fíl ef þeir borða bara einn bita í einu.
Gangi þér vel og njóttu dagsins!
Höfundur: Ingvar Jónsson

留言